Á síðasta ári fékkst styrkur frá Vaxtarsamningi Eyjafjarðar um þróun hugbúnaðar til birgðahalds sem ofangreindir aðilar unnu að með góðum árangri og varð það kveikjan að samningi þessum. „Við höfum ákveðið að hafa frumkvæði að því að stíga þetta skef inn í framtíðina og bindum vonir við að opinberir aðilar sýni þessu skilning og áhuga,“ segir Aðalsteinn Ingvason, framkvæmdastjóri Lyfjavers. Undir þetta tekur Halldór S. Guðmundsson, framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar: „Það hefur verið hvetjandi að taka þátt í þessu verkefni sem svo augljóslega einfaldar verkferla og samskipti til nútímalegri starfshátta. Afraksturinn er síðan aukinn tími starfsfólks öldrunarheimilanna til að sinna kjarnaverkefnum og auka öryggi og vellíðan í starfi. Við erum stolt af því að taka þátt í svona verkefni enda fellur það einkar vel að stefnu okkar um nýsköpun og framsækið starf.“
Verkefninu hefur miðað vel áfram og verður næsti áfangi innleiddur í tveimur skrefum núna í sumar. Að þeim áfanga loknum verður öll skráning á eftirritunarskyldum lyfjum á rafrænu formi sem er mikið framfaraskref frá því sem nú er.